top of page
Seydisfjödur Landslide.jpg

"Þegar rignir horfum við til fjalla"

Ingrid

"Ég missti allt; húsið, nýtt mótorhjól og 15 ára ljósmyndagögn"

Ingrid var að fara að leggja sig fyrir næturvakt á sjúkrahúsinu þegar lögreglumaður kom heim til hennar og ráðlagði henni að yfirgefa húsið. Hún fór með köttinn heim til vinar síns og var nýlögst niður þegar hún heyrði allt í einu drunurnar frá aurskriðunni, eins og í bíómynd. Húsið hennar, Berlín, gjöreyðilagðist þann dag.

Brimir

"Pabbi var tilbúinn að stökkva í sjóinn en fyrsta hugsun mín var að hlaupa í gegnum drulluna til að komast í öruggt skjól. Þetta var eins og í draumi"

Daginn sem skriðan féll lauk skólanum fyrr en vanalega svo að Brimir var kominn heim hálftíma áður en stóra skriðan kom niður. Brimir býr með foreldrum sínum í byggingu við ströndina sem er með bryggju. Þegar skriðan féll var faðir hans nýkominn úr sturtu og var bara á nærfötunum. Hann tók Brimi og greip björgunarhring um leið og þeir hlupu út. Þeim tókst að komast í gegnum aurinn, yfir á öruggara svæði þar sem þeim var bjargað um borð í bát.

Sævar

"Eftir skriðuföllin langaði mig að hætta í vinnunni en viðskiptafélagar mínir hvöttu mig til að halda áfram"

Sævar átti sandblástursverkstæði með sérbúnaði sem er hvergi annars staðar til á Íslandi. Hann hafði byggt fyrirtækið upp á þrjátíu árum með vélum sem hann flutti inn frá Evrópu. Húsnæðið hans var í aflögðum slipp við gömlu höfnina og hann hélt alltaf að þetta væri öruggasti hluti bæjarins. Aurskriðan féll yfir öll tækin og tólin hans, mörg þeirra glötuðust út í sjó.

Haraldur Magnús

“Við vissum að eitthvað stórt var í uppsiglingu. Allt benti til þess. Áin varð gruggug tólf tímum áður en skriðan féll”

Haraldur hefur unnið á gröfu og vörubíl í næstum heilt ár, fyrst sem hluti af hreinsunarliðinu og svo á svæði þar sem verið er að grafa grunna fyrir nýja íbúðabyggð. Þegar skriðan féll var Haraldur í útjaðri bæjarins norðan megin, að hreinsa veginn eftir litlu skriðuna.

Cordula and Bennet

„Þegar ég hringdi í Bennet son minn og sagði honum að Breiðablik hefði verið hrifsað af grunninum var það í fyrsta sinn sem hann heyrði mig gráta.“

Cordula fékk upphringingu frá Seyðisfirði þann 15. desember, daginn fyrir 85 ára afmæli móður hennar í Þýskalandi. Aurskriða hafði fallið niður fjallið á bak við heimili hennar og flætt um alla jarðhæðina. Hún þurfti að koma heim í snatri. Það var ekki auðvelt að komast til Seyðisfjarðar í miðjum alheimsfaraldri. Eftir flug yfir Atlantshafið, kóvidpróf og svo innanlandsflug, kom Cordula loksins heim að morgni 18. desember, um svipað leyti og húsið hennar rann af grunninum og út í fjörðinn. Hún hljóp beint inn í leðjuna, áttaði sig ekki á því hvað hún var djúp, og tók ljósmyndirnar sem birtust fyrst í fjölmiðlum af þessum ískyggilegu atburðum. Cordula er trésmiður og hafði unnið að því að gera Breiðablik upp í tvo áratugi. Húsið átti að hýsa framtíð hennar en aurskriðan þurrkaði alla þessa vinnu út á augabragði. Næstu tvo mánuði eftir hamfarirnar vann Cordula hörðum höndum að því að bjarga því sem bjargað varð áður en Breiðablik var að lokum rifið. Samhugurinn og stuðningurinn sem hún fékk veitti henni styrk til að byrja upp á nýtt, hún ætlar að endurbyggja Breiðablik á nýja heimili sínu að Austurvegi 19.

Jón

"Ég fæddist á bóndabæ þannig að ég er ýmsu vanur. Þetta mun gerast aftur eftir einhver ár … kannski tíu, kannski fimmtíu"

Ein af fyrstu stóru skriðunum féll fyrir ofan húsið hans og rann rétt hjá því. Aurinn sópaði húsi nágranna Jóns af grunninum og bar það í átt að bensínstöðinni. Jón gat ekki snúið heim til sín fyrr en eftir nokkra mánuði.

Sigga

"Þetta var eins og í bíómyndunum. Þú spyrð hvernig hljóðið hafi verið. Ég veit ekki hvernig það var. Ég man það ekki … maður hugsar bara um að hlaupa"

Sigga var heima þegar aurskriðan umlukti húsið hennar og hún festist í drullunni við að reyna að komast að heiman. Hún áttaði sig ekki á því hve djúp skriðan var fyrr en hún sökk alla leið upp að brjósti. Hún slasaðist á fæti á flóttanum og þurfti að undirgangast aðgerð.

Celia og Linus

"Maður verður að gera sér grein fyrir því að við búum undir fjalli og því fylgir áhætta. Þetta eru lífsgæði með áhættu"

Celia leigði hús sem þurfti að yfirgefa eftir skriðuföllin. Hún bjó í Landamóti í sex ár án þess að gera sér grein fyrir að það stæði á hættusvæði. Linus bjó í nokkurra metra fjarlægð frá svæðinu þar sem skriðan féll. Nú eru þau að gera upp nýtt heimili á öruggara svæði. Það er í Gamla bakaríinu, einni af fáum múrsteinsbyggingum á Íslandi, sem var byggð 1914.

Illugi

"Fyrstu mánuðina eftir skriðuföllin fannst mér óþægilegt að vera í húsinu mínu, sérstaklega í rigningu"

Illugi býr á svæði þar sem önnur skriða féll fyrr í vikunni. Þann 18. desember var hann í kjallaranum heima hjá sér að hreinsa til eftir þá skriðu. Þegar stóra skriðan féll í nokkur hundruð metra fjarlægð hristist allt húsið hans og rafmagnið fór. Hann lýsir þessu sem óskiljanlegri tilfinningu, gjörsamlega súrrealísku. Það sem hann man best eftir er hljóðið.

Elvar og Ingirafn

„Ég heyrði hljóð og hélt fyrst að þetta væru vörubílarnir að keyra framhjá. Svo hækkaði það og byggingin byrjaði að titra. Núna veit ég að þetta var líklega rusl að lenda á byggingunni, þarna vissi ég að ég yrði að koma mér út strax.“

Elvar og Ingirafn unnu á gamla trésmíðaverkstæði Tækniminjasafns Austurlands. Byggingin var frá 1897 og þeir höfðu varið sumrinu við að skipta um þak á henni. Þann 18. desember var Elvar við störf þar þegar skriðan féll og rústaði öllu svæðinu. Hann hljóp út af verkstæðinu um leið og byggingin hrundi. Ári síðar eru Elvar og Ingirafn enn við vinnu, með nýjum vélum á nýju verkstæði, en þeir sakna andrúmsloftsins og sögunnar á gamla staðnum.

Jonathan og Ida

„Við sáum útum gluggann þegar skriðan féll. Það var eins og þetta gerðist hægt. Við héldum að allir vinir okkar sem bjuggu þar væru dánir.“

Jonathan og Ida eru eigendur Austurland Food Coop, fyrirtækis sem flytur inn lífræna ávexti og grænmeti og sendir um allt Ísland. Í þessari örlagaríku viku féll ein skriða á bensínstöðina sem þau sjá um og önnur rétt framhjá heimili þeirra, sem þau urðu að yfirgefa. Þau urðu líka að yfirgefa vöruhúsið sitt þegar þau voru í miðju kafi að pakka grænmeti. Starfsemi fyrirtækisins stöðvaðist mánuðum saman og þau töpuðu stórfé. Næstum tveimur árum síðar hefur Jonathan og Idu tekist að halda fyrirtækinu á floti og opna matstaðinn á bensínstöðinni aftur. Jonathan finnst hvorki starfsemi fyrirtækisins né öryggi samfélagsins hafa verið nægilega tryggt. Hann spyr af hverju ekki hafi verið sett upp viðvörunarkerfi fyrir tuttugu árum, þegar hættan á skriðuföllum var orðin ljós.

Oddný

"Við höfðum þurft að yfirgefa húsið fjórum sinnum áður en í þetta sinn vissum við ekki að við gætum aldrei snúið aftur"

Oddný og fjölskylda hennar yfirgáfu húsið sitt að eigin frumkvæði fyrir skriðuföllin, þau skynjuðu að það rigndi alltof mikið. Það sem þau gátu ekki ímyndað sér var að þau gætu aldrei snúið þangað aftur. Húsið rétt slapp við skriðuna en svæðið hefur nú verið dæmt óíbúðarhæft og eftir hamfarirnar fóru þau þangað, pökkuðu öllu niður og yfirgáfu það fyrir fullt og allt.

Sesselja

„Félagsheimilið varð miðstöð hjálparaðgerða þótt það sé tæknilega séð ekki gert fyrir slíka starfsemi. Það bara gerðist, að sjálfsögðu, af því að það er opinn og notalegur staður, eins og við höfum gert það.“

Á fyrstu klukkutímunum eftir að aurskriðan féll þann 18. desember, fékk hver einasti íbúi á Seyðisfirði símaskilaboð þar sem fólk var beðið um að gefa sig fram í félagsheimilinu Herðubreið áður en það yfirgæfi bæinn. Sesselja og Celia, sem sjá um rekstur félagsheimilisins, áttu líka heima á skriðusvæðinu en urðu að setja persónuleg mál sín til hliðar og hjálpa björgunarsveitunum og Rauða krossinum að koma sér fyrir í miðju rafmagnsleysi. Byggingin fylltist af fólki og ringulreið ríkti þar sem enginn vissi hvernig væri best að taka á málum. Í kjölfarið varð Herðubreið að hjálparmiðstöð. Íbúarnir voru í geysilegu uppnámi, sumir óttaslegnir, aðrir ringlaðir og jafnvel reiðir. Sesselja og Celia stóðu vaktina í marga daga og gengu úr skugga um að allir fengju húsaskjól, mat og hughreystingu. Jólin voru sérstaklega erfið, þá sneru flestir hjálparstarfsmennirnir heim til að halda þau hátíðleg með fjölskyldum sínum og nokkrir sjálfboðaliðar af staðnum tóku að sér að sjá um jólamáltíðina í Herðubreið. Mánuði eftir skriðuföllin var enn verið að elda mat handa allt að áttatíu manns á dag í félagsheimilinu. Sesselja segir að þótt allir hafi gert sitt besta í þessum erfiðu aðstæðum, „verðum við að gera enn betur næst.“

Ólafía og Jóhann

"Við eigum aðeins góðar minningar um þennan stað. Við vorum eins og stór fjölskylda, með öllum sem unnu þar"

Söguleg smiðjan, sem síðar varð Tækniminjasafn Austurlands, var stofnuð af Jóhanni Hanssyni, afa Ólafíu og Jóhanns. Smiðjan var byggð 1907 og var í eigu fjölskyldunnar í yfir 90 ár. Á blómaskeiði hennar unnu þar um þrjátíu manns, þetta var mikilvæg miðstöð iðnaðar í bænum og þarna hittist fólk gjarnan. Ólafía og Jóhann vörðu barnæsku sinni í byggingunni þannig að eyðileggingin hefur tekið á þau. Þau vonast til að sjá minnismerki reist afa sínum og starfsemi hans á staðnum þar sem smiðjan stóð.

Pétur

"Sem listamaður getur maður sætt sig við að glata verkunum sínum. Maður getur búið til ný. Mér finnst gaman að gera nýja hluti. Þetta sýnir manni hvernig lífið getur verið og það getur verið ágætt að takast á við veruleikann"

Pétur er listamaður og fyrrverandi framkvæmdastjóri Tækniminjasafns Austurlands. Sumarið eftir skriðuföllin opnaði hann sýningu í Skaftfelli sem bar titilinn Fikt og fræði. Þetta var yfirlitssýning yfir þrjátíu ára feril hans en þó hafði mikið af verkum hans glatast í skriðunni. Mörg verk og efni höfðu verið geymd í Turninum, einni elstu og dáðustu byggingu bæjarins. Pétur lýsir sýningunni sem birtingarmynd þess sem eftir stóð.

Zuhaitz

“Þegar skriðan féll á safnið sópaðist allt sem verið var að gera burt og vinnan sem felst í því að varðveita safnið varð hundrað sinnum erfiðari”  

Zuhaitz hafði tekið við stöðu Péturs sem framkvæmdastjóri Tækniminjasafns Austurlands um það bil ári fyrir skriðuföllin. Hann vissi að starfið yrði krefjandi þar sem safnið innihélt gríðarlegt magn muna í mörgum byggingum. Allar áætlanir og hafin vinna þurrkaðist út á augabragði þegar skriðan féll á fjórar af safnbyggingunum og gróf talsverðan hluta safnsins í grjóti og aur. Vinnan við að bjarga safninu var erfið og sár. Safnbyggingarnar voru ónýtar og sýningarrýmin höfðu færst til. Ferlið minnti á fornleifauppgröft og það tók marga mánuði að endurheimta, endurflokka og hreinsa mörg þúsund skjöl, muni og sögulegar vélar.

Elfa

"Þetta var eins og í stríði, nema hvað það var náttúran sem varpaði sprengjunum. Kannski kölluðum við þetta yfir okkur sjálf. Svona mikil rigning á svona stuttum tíma getur verið afleiðing loftslagsbreytinga"

Elfa fylgdist með því út um gluggann þegar skriðan féll fyrir ofan Garð, fyrrum heimili hennar. Húsið bjargaðist, en Elfa missti húsið sitt, eins og Oddný frænka hennar, þar sem svæðið þar sem Garður stendur hefur nú verið dæmt óbyggilegt. Efla hafði leigt húsið út síðustu tvö árin en það var henni svo dýrmætt að hún vonaðist til að flytja þangað aftur. Þótt bærinn hafi greitt bætur þeim sem ekki gátu snúið aftur til heimila sinna munu þeir aldrei aftur geta farið heim.

Halli

„Fyrsta hugsun mín var: Hvernig á ég að útskýra þetta fyrir krökkunum mínum?“

Halli missti heimili sitt í eina skriðuna. Framhús var gömul bygging, frá 1906, og hann hafði varið síðustu sex árum í að gera húsið upp sjálfur. Húsið hrundi þegar stór tunga úr skriðunni féll á það. Halli gat bjargað hluta upprunalega hússins og vonaðist til að geta endurbyggt heimili sitt eins nálægt upprunalega staðnum og mögulegt var, en nýr árfarvegur var grafinn þar í staðinn. Hann er ekki reiður út í fjallið sem hrundi heldur vonsvikinn yfir hve kuldalega hefur verið staðið að enduruppbyggingunni og yfir ákvörðunum sem teknar voru í kjölfar hamfaranna. Með því að hreinsa svæðið svona vel hvarf hluti af sögunni. Það eina sem er eftir af húsinu hans er barnaróla. Tréð sem hún hangir í var gróðursett á þriðja áratugnum.

Alla

"Í smástund hélt ég að fjölskyldan mín hefði farist … ég hélt að þeir væru dánir og áfallið var jafn raunverulegt og alvöru sorg"

Alla sá úr fjarlægð þegar skriðan féll fyrir ofan húsið hennar og varð strax hugsað til eiginmanns síns og tveggja sona sem voru þar inni. Húsið þeirra slapp við skriðuna, sem klofnaði og fór framhjá því. Sem betur fer meiddust þeir ekki en þessi fyrstu augnablik ótta og ringulreiðar hélt Alla að hún hefði misst þá.

Bjarki

"Ég klifraði upp á það hæsta sem ég fann nálægt mér"

Bjarki, lögreglumaðurinn á staðnum, ber líka ábyrgð á því að fylgjast með fjallshlíðinni í mikilli rigningu og snjókomu og deila upplýsingum með yfirvöldum. Hann var við störf á miðju skriðusvæðinu þegar stóra skriðan féll og reyndi að bjarga sér upp á hæsta punktinn sem hann vissi um. Eftir að hafa klifrað upp stálturninn við gömlu höfnina fylgdist hann með skriðunni falla báðum megin við turninn og vonaðist til að sleppa.

Guðrún

"Mér þykir vænt um bæinn minn. Ég kann vel við nágrannana og elska fjöllin, þótt þau séu hættuleg. En ég held að þannig sé þetta alltaf … þannig hegðar náttúran sér. Hún gefur og tekur"

Guðrún og fjölskylda hennar fluttu nýlega frá Reykjavík til Seyðisfjarðar. Þar var húsnæðisástandið betra og daglegt líf virtist auðveldara en í borginni, eða það hélt hún. Eftir að hafa búið í bænum í ár var áfall að komast að því að samkvæmt nýju áhættumati var húsið hennar á áhættusvæði. Á fundi með bæjarstjórninni var hún fullvissuð um það að verndandi aðgerðir væru fyrirhugaðar. Nokkrum vikum síðar féll fyrsta litla skriðan nálægt heimili hennar og hún beið ekki boðanna en pakkaði niður og flutti fjölskylduna heim til vinafólks síns.

Davíð

"Okkar eigið hús hafði skemmst og við urðum að flytja út en það var aukaatriði. Við þurftum að hjálpa öllum sem áttu bágt og það gerðum við"

Davíð er sjálfboðaliði í björgunarsveit staðarins. Fyrstu dagana eftir skriðuföllin fylgdi hann fólki inn og út af yfirgefnum svæðum, hafði umsjón með athugunum á skemmdum húsum og fyllti rafstöðina af eldsneyti á sex tíma fresti til að samskiptakerfi bæjarins hefðu rafmagn. Davíð og fleiri höfðu orðið fyrir persónulegum áföllum af völdum hamfaranna en tóku einnig þátt í björgunarstörfum. Þegar umrótið var sem mest var Davíð hvað rólegastur. Hann er ánægður með hvað allir unnu vel saman og stóðu saman.

Across the Fjord.jpg
Lijlja.jpg

Lilja

„Það var eins og eitthvað innra með mér vissi að eitthvað myndi gerast. Þegar ég var í vinnunni var ég stöðugt að líta á fjallið út um gluggann. Daginn sem stóra skriðan féll var ég alltaf við gluggann, það fór jafnvel í taugarnar á fólkinu sem ég vann með.“

Heimili Lilju var eitt hið fyrsta sem flæddi inn í þessa örlagaríku viku. Hún átti í stöðugum slag við leðju og vatn í kjallaranum hjá sér og fór varla úr stígvélunum og regnbuxunum þessa daga. Að lokum komu björgunarsveitarmenn heim til hennar og sögðu að hún yrði að yfirgefa húsið. Síðar sama dag heyrði hún „brjálæðislegar drunur“ og brást við með að hlaupa í áttina að því, á móti vinum hennar sem hlupu burt frá hljóðinu, gráir í framan og ataðir aur. Það er erfitt að rifja þetta upp, segir hún. Hjartað berst hraðar og hún verður rjóð í framan.

Þorgeir and Sigurbergur

"Þegar við opnuðum veginn með vélunum okkar eftir skriðuföllin rákumst við á marga muni sem komu úr húsunum sem höfðu eyðilagst"

Bændurnir í Sunnuholti hafa unnið á gröfum og vörubílum, með mold, möl og steypu, síðan þeir voru ungir. Þessi vinna var ólík öllu öðru. Þeir tóku þátt í hreinsunarstörfum eftir fyrstu skriðuna en þegar sú stóra féll gengu þeir til liðs við hóp gröfumanna, bílstjóra og björgunarsveitarmanna sem unnu mánuðum saman við að hreinsa aur og grjót af svæðinu.

_RIM2460.jpg

Julia

"Garðurinn verður að halda áfram"

Julia er listakona og landslagshönnuður og hefur tekið séð um garð við höfnina í mörg ár, til að prýða nýja hafnarsvæðið í bænum gera það fallegra. Aurskriðan drekkti garðinum í drullu. Hún var við það að gefast upp þegar starfsmenn bæjarins höfðu samband við hana og spurðu hvort hún vildi ekki láta grafa garðinn upp. Þetta er táknrænt, sagði hún, garðurinn verður að halda áfram.

Ómar

"Ég hef áhyggjur af fólkinu sem vinnur hérna. Það er í mínum verkahring að tryggja öryggi þess"

Ómar er rekstrarstjóri fiskvinnslu Síldarvinnslunnar hf. Daginn sem stærsta skriðan féll var hann á leið út í fiskvinnsluna rétt fyrir klukkan þrjú síðdegis til að slökkva ljósin. Yfirleitt í úrhellisrigningu flæðir mikið vatn niður hlíðina og Búðarárfossinn en í þetta sinn var fossinn þurr. Skyndilega heyrði hann mikinn hávaða, sem er það sem hann man mest eftir, svo ofboðslegar drunur að hann hélt að fjallið væri að steypast yfir hann. Eftir þetta er óvíst að fiskvinnslan geti verið á sama stað.

Silver Palace.jpg

Apolline, Keith, Csaba, Javier

"Rúmlega hundrað máltíðir á dag, sjö daga vikunnar"

Starfsfólk í eldhúsum á hótelum og veitingahúsum bæjarins breyttist í björgunarsveitarfólk á einum degi þegar neyðin skall á. Þau vildu gera það sem þau gátu, sem fólst í því að elda fyrir fjölda fólks. Miðstöðin var í félagsheimilinu og þar eldaði starfsfólkið fyrir þá íbúa sem misst höfðu heimili sín, sjálfboðaliða Rauða krossins, björgunarsveitirnar, byggingarverkamenn, verkfræðinga og veðursérfræðinga, auk allra þeirra sem gátu ekki snúið til heimila sinna vikum saman.

Tóti

"Ég tók kött nágrannans upp og hljóp í gegnum  drulluna"

Þegar aurinn úr fyrstu skriðunni byrjaði að flæða inn um gluggana hjá Tóta ákvað hann að fara að heiman og gista hjá Siggu vinkonu sinni. Hann gat ekki vitað að þar væri ekki meira öryggi að finna. Tveimur dögum síðar féll skriða á svæðið þar sem Sigga bjó og húsið var umkringt af drullu.

Svavar

"Mig langaði að gera eitthvað fallegt fyrir Seyðisfjörð"

Svavar er áhugagarðyrkjumaður frá Búðardal á Vesturlandi. Þegar hann frétti af skriðuföllunum datt honum í hug að bærinn myndi þurfa á blómum að halda svo að hann byrjaði að sá þeim í bílskúrnum sínum í febrúar. Fimm mánuðum síðar fékk hann lánaðan vörubíl og fór til Seyðisfjarðar til að planta blómunum á skriðusvæðinu.

Share this project with your friends: 

bottom of page