top of page

The Landslide Project

Þegar fólk fór að búa sig undir gleðilega jólahátíð eftir erfitt ár, byrjaði að rigna á Seyðisfirði. Frá 14. til 18. desember 2020 mældist úrkoma í bænum 569 millimetrar og nýtt met var þar með slegið í rigningu yfir fimm daga tímabil síðan mælingar hófust á Íslandi. Vatnið sem safnaðist saman á hásléttunum og í vatnsfarvegum grófst inn í fjallshlíðarnar og gerði þær óstöðugar. Þann 15. desember féll fyrsta aurskriðan fyrir ofan íbúðabyggð og fólki í nokkrum götum bæjarins var gert að yfirgefa hús sín. Eftir fjóra daga af úrhellisregni í viðbót var neyðarástandi lýst yfir. Það var illur fyrirboði þegar flóð sópaði húsi af grunni sínum og bar það með sér í átt að bensínstöðinni, þar sem það hrundi saman undan þunga regns og myrkurs. Björgunarsveitir og hjálparstarfsmenn voru þegar mætt til aðstoðar og íbúarnir voru vongóðir um að rigningunni slotaði fyrir jólin. Enginn gat ímyndað sér hvað var í vændum.

 

Gríðarstór aurskriðan sem féll þann 18. desember var stærsta skriða sem hefur fallið á íbúðabyggð á Íslandi, hún eyðilagði þrettán hús og eitt safn, auk þess sem stór hluti bæjarins hvarf undir aurinn. Innan nokkurra klukkutíma voru skelfdir íbúar bæjarins allir á leiðinni yfir heiðina í bílalest, eftir eina veginum sem liggur frá Seyðisfirði. Þegar þarna var komið sögu vissi enginn hvort allir hefðu bjargast. Fyrir eitthvert kraftaverk björguðust allir.

 

Eftir þessar hörmungar og átakanlegar sögur af björgunarátakinu, ákvað Ströndin Studio, ljósmyndamiðstöð á Seyðisfirði, að fylgja eftir sögum fólks af atburðunum og björguninni. Með stuðningi frá Hvatasjóði Seyðisfjarðar var ákveðið að fela ljósmyndurunum Kötju Goljat og Matjaž Rušt að taka myndir af íbúunum, fanga eftirköst náttúruhamfaranna og áhrif þeirra, ekki aðeins á landslagið heldur einnig á fólkið sem varð fyrir þeim.

 

Útkoman úr þessu verkefni birtist á þessari vefsíðu sem netsýning til að minnast skriðufallanna í desember 2020 og votta íbúum Seyðisfjarðar virðingu okkar.

 

Sérstakar þakkir fá:

Apolline Fjara og Hallur Á Hálvmørk Joensen fyrir það örlæti sitt að hýsa listafólkið.

Michelle Auer og Ingunn Snædal fyrir prófarkalestur og þýðingar.

Hvatasjóður Seyðisfjarðar fyrir fjárhagslegan stuðning.

 

Framar öllu viljum við þakka kærum íbúum Seyðisfjarðar sem deildu sögum sínum með okkur af miklu hugrekki.

bottom of page